Search
  • Birkir Ingibjartsson

Suðurlandsstræti

Birkir Ingibjartsson

Grein birtist fyrst í hverfablaði Laugardals, Háaleitis- og Bústaða.Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig hlutverk Suðurlandsbrautar hefur þróast og breyst síðustu 70-80 árin. Saga götunnar er að mörgu leiti samtvinnuð þeim mörgu þróunar- og uppbyggingarskeiðum sem borgin hefur farið í gegnum frá miðri 20. öldinni og ber umhverfi götunnar þessu skýran keim enda margbreytilegt og kaflaskipt. Það er því táknrænt að næsta skref í þróun borgarinnar skuli einnig að mörgu leyti hverfast um Suðurlandsbraut og þær breytingar sem áætlaðar eru á sjálfri götunni og umhverfi hennar. Þar spilar Borgarlínan lykilhlutverk.


Fyrir okkur sem búum í aðlægum hverfum verður breytingin á umhverfi hennar hinsvegar ekki bara táknræn heldur bylting. Umhverfi götunnar í dag er ekki aðlaðandi og ólíklegt til að draga að vegfarendur aðra þá en akandi. Sunnan götunnar er engin samfelld gangstétt á milli húsa, enginn hjólastígur og lítill gróður. Með því að fækka akreinum og draga úr gegnumakstri um götuna verður til svigrúm í göturýminu sem hægt er að nýta til að stórbæta öryggi og aðgengi virkra ferðamáta og auka gróður í götunni. Skilvirkni Borgarlínunnar mun um leið tryggja að þrátt fyrir færri akreinar fyrir bíla mun mögulegt gegnumstreymi vegfarenda um götuna aukast frá því sem nú er.


Áætluð er talsverð uppbygging í nágrenni götunnar á næstu misserum. Við Grensásveg eru þegar farin að rísa ný íbúðarhús og á Orkureit liggur fyrir samþykkt skipulag af uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Slíkar hugmyndir liggja fyrir víðar við götuna og á aðlægum reitum, t.d. í Skeifunni og í Múlahverfinu. Um leið er ríkur vilji til að byggja upp öflugri innviði fyrir íþróttafélög borgarinnar í Laugardalnum og þróa það áfram sem útivistarsvæði borgarbúa. Aukinni uppbyggingu og fleiri íbúum mun fylgja aukin umsvif í nágrenni Suðurlandsbrautar. Endurhugsun á fyrirkomulagi götunnar er því ekki einungis tímanna tákn heldur nauðsynleg aðgerð svo allar tegundir umferðar um götuna og umhverfi hennar gangi smurt og örugglega.


Með fyrirhuguðum breytingum mun hlutverk Suðurlandsbrautar sem meginás í gegnum aðlæg hverfi styrkjast til muna. Það ætti að vera okkur sem búum í nágrenni götunnar vakning til að krefjast þess að metnaður verði settur í alla umgjörð og hönnun þannig að til verði gott borgarrými þar sem áhugavert er að koma og vera. Endurvakið hlutverk götunnar sem megin aðkomuleiðin frá austurhluta borgarinnar inn í miðborgina ætti um leið að vera uppbyggingaraðilum hvatning til að vanda alla uppbyggingu og leggja áherslu á vandaða hönnun nýbygginga. Ef vel tekst til gæti Suðurlandsbraut orðið alvöru breiðstræti að erlendri fyrirmynd þar sem fjölbreyttir ferðamátar flæða um í bland við fjölbreytta þjónustu og mannlíf. Mögulega er kominn tími til að skipta um viðskeyti í heiti götunnar. Mun Borgarlínan aka Suðurlandsstræti í framtíðinni?Höfundur skipar 8. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík