Search
  • Skúli Helgason

Yngri börn komast í leikskóla í Vesturbæ

Nýr leikskóli við Eggertsgötu og þrír leikskólar í hverfinu stækka


Greinin birtist í mars útgáfu Vesturbæjarblaðsins


Yngri börn komast nú inn í leikskóla borgarinnar. Síðastliðið haust fengu öll börn sem náð höfðu 18 mánaða aldri boð í leikskóla í Reykjavík þar sem áður var miðað við 24 mánaða aldur. Í haust verður byrjað að taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla borgarinnar. Yfir 800 ný leikskólarými verða tekin í notkun á þessu ári í borginni. Yfir 90 prósent barna í borginni komast í leikskóla í sínu hverfi.


Þetta er afrakstur kraftmikillar uppbyggingar á leikskólum í Reykjavík sem var samþykkt í árslok 2018 af Samfylkingunni og samstarfsflokkum í borgarstjórn, samkvæmt áætluninni Brúum bilið. Vegna barnafjölgunar er framundan mikil uppbygging leikskóla í hverfinu og borginni allri.


Gullborg, Hagaborg og Sæborg stækka

Í janúar síðastliðnum lauk framkvæmdum við leikskólann Gullborg við Rekagranda sem getur þá tekið á móti 27 börnum til viðbótar. Leikskólinn Hagaborg, í nábýli við Melaskóla og Hagaskóla, mun sömuleiðis stækka með tveimur nýjum leikskóladeildum sem munu nýtast rúmlega 30 börnum. Stefnt er að opnun þessara deilda strax í haust. Þá er ráðgert að stækka leikskólann Sæborg við Starhaga með viðbyggingu sem mun rúma um 48 börn til viðbótar. Sæborg er staðsettur á fallegri lóð við sjávarsíðuna og þar verður reist viðbygging sem verður tilbúin til notkunar innan þriggja ára.


Ævintýraborg opnar við Eggertsgötu

Nýr leikskóli opnaði þann 1. mars á horni Eggertsgötu og Njarðargötu sem er hluti af þeirri lausn sem kallast Ævintýraborgir. Þar verður hægt að bjóða 85 börn velkomin í áföngum og mæta brýnni þörf fyrir leikskólarými í hverfinu. Ævintýraborg við Eggertsgötu brúar bilið þar til nýr og veglegur leikskóli opnar í Skerjafirði um eða upp úr miðjum áratug.


Mikil íbúafjölgun í Reykjavík

Íbúum Reykjavíkur hefur fjölgað um 10 þúsund frá 2017. Þá hefur orðið mikil fjölgun fæðinga undanfarin 2 ár, sem gerir það að verkum að þörfin fyrir ný leikskólapláss verður enn meiri en áður var talið. Við bregðumst við þessari þróun með því að fjölga plássum tvöfalt meira en áformað var 2018. Framundan er mesta uppbygging sem sést hefur í leikskólamálum á þessari öld og er stefnan að rúmlega 800 ný leikskólarými verði tekin í notkun í borginni á þessu ári. Þar með verður hægt að byrja að taka á móti 12 mánaða börnum í haust, þ.e. börnum sem verða 12 mánaða og eldri í byrjun september. Inntökualdur barna yfir vetrarmánuðina verður áfram hærri að meðaltali en fer þó hratt lækkandi á komandi árum með fjölgun plássa. Alls fjölgar plássum um 1680 á næstu 4 árum.


Arfleifð Reykjavíkurlistans

Sjálfstæðisflokkurinn byggði upp leikskólakerfi í Reykjavík á 60 ára valdatíð sinni sem einkenndist af skorti og mismunun gagnvart foreldrum. Foreldrar í sambúð gátu ekki fengið leikskólapláss nema hálfan daginn og mörg börn komust aldrei í leikskóla, þar á meðal undirritaður! Með tilkomu Reykjavíkurlistans undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra varð leikskóli að heilsdagsúrræði fyrir flest börn og með lögum frá 2008 var staðfest að leikskólinn væri menntastofnun, fyrsta skólastigið í íslensku menntakerfi. Nú er svo komið að tæp 90 prósent 1 til 5 ára barna ganga í leikskóla og yfir 90 prósent barna í Reykjavík njóta þess að sækja leikskóla í sínu borgarhverfi.


Mikil uppbygging um alla borg

Samfylkingin hefur leitt vinnu við að fjölga leikskólaplássum með samstarfsflokkum í borgarstjórn, til að geta boðið yngri börnum í leikskóla. Sem dæmi höfum við opnað rúmlega 30 ungbarnadeildir, bara á þessu kjörtímabili, þar sem boðin eru velkomin börn allt niður í 15 mánaða og jafnvel yngri. Á þessu ári stefnir í að leikskólum fjölgi um 8 í Reykjavík, með 4 Ævintýraborgum með alls 345 plássum, nýjum ungbarnaleikskóla við Bríetartún og nýjum leikskólum við Kleppsveg, Safamýri og Ármúla. Þá verður fjölgað leikskóladeildum við að minnsta kosti fimm leikskóla víðs vegar um borgina, svo sem í Grafarvogi og Breiðholti og ekki síst í Vesturbæ eins og áður segir.