Search
  • Skúli Helgason

Leikskólar og lausnir

Greinin birtist á vefsíðu Fréttablaðsins 12. maí 2022.

Leik­skóla­mál eru mikið í um­ræðunni þessa dagana og það er gott enda er leik­skólinn fyrsta skóla­stigið þar sem grunnur er lagður að menntun og al­hliða þroska barna. Í leik­skólum í Reykja­vík starfar fjöl­breyttur hópur fólks með menntun, reynslu og ást­ríðu fyrir þessu mikil­væga starfi, leik­skóla­kennarar og leik­skóla­stjórar, há­skóla­menntað fólk með upp­eldis­menntun, ó­fag­menntað starfs­fólk oft með mikla reynslu og kunn­áttu á sínu sviði og ungt fólk sem í mörgum til­vikum er að afla sér dýr­mætrar reynslu í starfi sem er í senn gefandi og krefjandi.

Í Reykja­vík höfum við lagt okkur fram um að hlusta eftir röddum starfs­fólksins um mikil­vægi þess að bæta starfs­um­hverfi leik­skólanna og höfum gripið til fjöl­margra að­gerða í því sam­bandi. Þær snúa m.a. að fjölgun starfs­fólks á elstu deildum, fækkun barna í rými til að minnka álag, fjölgun undir­búnings­tíma, auknu fjár­magni til fag­legs starfs, fjölgun náms­leyfa o.s.frv. Alls hefur borgin lagt fram 4,2 milljarðar í þessar að­gerðir til að bæta starfs­um­hverfi leik­skólanna auk þess að hækka laun og auka veru­lega fjár­magn í við­hald leik­skóla­hús­næðis.

Bætt starfs­um­hverfi er ekki tjald til einnar nætur – við í Sam­fylkingunni lítum á­fram á það sem for­gangs­verk­efni og viljum að það verði eitt af fyrstu verkum okkar í nýrri borgar­stjórn að kalla saman full­trúa starfs­fólks leik­skóla og grunn­skóla til að leggja línur fyrir næstu fjögur ár um hvernig við bætum enn frekar vinnu­um­hverfi kennara og starfs­fólks leik­skóla, grunn­skóla og frí­stunda­starfsins í borginni.

Lausnir sem virka?

Í kosninga­bar­áttu hafa flokkar kynnt ýmsar hug­myndir sem lausnir á leik­skóla­vandanum. Meðal þeirra er að stytta leik­skólann um eitt ár, út­rýma bið­listum eftir leik­skóla­plássi, stofna fyrir­tækja­leik­skóla og taka upp fjöl­skyldu­greiðslur. Stytting leik­skólans um eitt ár er undar­leg kveðja til leik­skóla­starfs­fólks sem af metnaði heldur uppi starfi sem yfir 90% for­eldra lýsa mikilli á­nægju með og grunn­stefna leik­skólanna að mennta börn í gegnum leik ætti frekar að fá meira rými í mennta­kerfinu en minna, ekki síst á yngsta stigi grunn­skólans.

Hug­myndir um að eyða bið­listum eftir leik­skóla­plássi eru í besta falli ó­raun­sæjar, því nýjar um­sóknir berast í hverri viku og munu gera það á­fram meðan börn fæðast eða flytjast til borgarinnar. Fyrir­tækja­leik­skólar geta átt rétt á sér en þá þarf að manna eins og aðra leik­skóla og mikil­vægt er að þeir auki ekki á ó­jöfnuð varðandi inn­töku barna. Fjöl­skyldu­greiðslur geta svo aldrei komið í staðinn fyrir leik­skóla­pláss fyrir for­eldra á vinnu­markaði og á það hefur verið bent að slíkar heim­greiðslur séu í raun at­laga að kynja­jafn­rétti á vinnu­markaði.

Hver er vandinn?

Vandi leik­skólanna á Ís­landi kristallast í raun í því að skortur hefur verið um margra ára skeið á fag­fólki, þ.e. leik­skóla­kennurum. Nær­tækasta skýringin á því er að að­sókn í kennara­nám hrundi á árunum eftir að kennara­námið var lengt úr 3 árum í 5 og hefur ekki náð fyrri hæðum síðan. Enn vantar um helmingi fleiri kennara­nema til að mæta þörfinni og ný­leg laga­breyting um eitt leyfis­bréf kennara hefur haft þau ó­heppi­legu á­hrif að leik­skóla­kennarar hafa í hundraða tali flutt sig um set úr leik­skólum í grunn­skóla­kennslu. Þessar tvær á­kvarðanir Al­þingis voru teknar að frum­kvæði mennta­mála­ráð­herra Sjálf­stæðis­flokks og síðar Fram­sóknar­flokks og á­byrgð þessara flokka er því mikil á leik­skóla­vandanum sem þessir flokkar vilja nú leysa strax með fyrr­nefndum hug­myndum sem í fyrsta lagi munu ekki virka og í öðru lagi ætti því alls ekki að ráðast í strax.

Sam­fylkingin mun á­fram leggja sig fram um að bæta kjör og starfs­um­hverfi í leik­skólum, auka þver­fag­lega sam­vinnu fag­stétta og tryggja rík tæki­færi til starfs­þróunar m.a. til að gera leik­skólana að eftir­sóknar­verðari vinnu­stöðum. Við viljum vinna með ríki, há­skólum og fag­fé­lögum að fjölgun kennara og aukinni virðingu fyrir kennara­starfinu. Í leik­skólum, grunn­skólum og frí­stunda­starfinu er grunnur lagður að gæða­menntun og al­hliða þroska barna og það er ein­fald­lega eitt mikil­vægasta verk­efni okkar í borginni að vanda þar til verka og hlúa að börnum sem best við getum.