Search
  • Sara Björg Sigurðardóttir

Grafarvogur - Hverfi lífsgæða

Greinin birtist fyrst í maí útgáfu Grafarvogsblaðsins

Í borginni eru margir staðir til að næra sál og líkama. Mörgum finnst gott að ganga, finna lyktina af náttúrunni og njóta útsýnis. Öðrum finnst skemmtilegra að hjóla, vera í síbreytilegu umhverfi innan borgarmarkanna, hjóla meðfram sjónum með vindinn í fangið, upplifa sólsetur með sjávarlykt eða horfa á borgina vakna í hversdagsleikann í upphafi vinnuviku. Á síðustu tíu árum hefur orðið umbreyting á ferðavenjum borgarbúa eftir mikla uppbyggingu á innviðum hjólastíga og með tilkomu rafhjóla. Á síðasta kjörtímabili var tekin pólitísk ákvörðun í ráðhúsinu, undir forystu Samfylkingar, að forgangsraða fjármunum í hjólreiðainnviði fyrir fjölbreytta vistvæna ferðamáta, fyrst með hjólreiðaáætlun 2015-2020 og svo var samþykkt ný hjólreiðaáætlun sem gildir fyrir árin 2021-2025.


Tröppu þrek upp Svarthöfða

Íbúar í Grafarvogi eru mjög heppnir með stígakerfið sitt og samhliða sjárvarsíðunni er kominn geggjaður strandstígur fyrir Gufuneshöfða. Þetta er án vafa einn fallegasti stígur borgarinnar enda hægt að setjast niður á bekki og njóta útsýnis yfir Viðey og borgarinnar frá sjónarhorni sem ekki allir hafa séð. Aðgreindur stígur fyrir gangandi og hjólandi upp Svarthöfða er frábær viðbót en þar geta vaskir tekið gott tröppuþrek, kerrupúl eða hjólaþol og notið útsýnis yfir borgina. Frábær viðbót fyrir útivistarperluna Grafarvog.


Öflug uppbygging í þágu barna og ungmenna í hverfinu

Mikil uppbygging hefur verið síðustu tvö kjörtímabil í þágu íþrótta við Egilshöll en svæðið er eitt glæsilegasta íþróttasvæði landsins sem telur m.a. þar knatthús í fullri stærð, það eina sinnar tegundar í borginni, fimleikahús ásamt Skautasvelli. Á þessu kjörtímabili bættist síðan við íþróttahús fyrir inniíþróttir. Fimleikahúsið var mjög mikilvæg viðbót við þessa frábæru aðstöðu því þá fjölgaði stúlkum marktækt í Grafarvogi í þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvaða íþróttaframboð er veitt í hverfum borgarinnar þegar horft er til þátttöku beggja kynja og þarna skilaði sér sú uppbygging í beinni fjölgun stúlkna í fimleikum.


Austurheiðar - Hin nýja Heiðmörk Reykvíkinga

Við í Samfylkingunni viljum efla Austurheiðar með markvissari hætti sem fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir borgarbúa á öllum aldri með ólík áhugamál sem gætu notið útivistar og náttúru án þess að ganga á gjafir náttúrunnar. Við sjáum fyrir okkar hópa eins og hestafólk, fjalla hjólreiðamenn, göngu og utanvegahlaup jafnvel vetraríþróttir eins og gönguskíði. Mikilvægt er að ákvarða og skilgreina legu helstu vegtenginga og göngu-, hjóla og reiðleiða um svæðið, styrkja tengingu byggðar við útivistarsvæði og aðliggjandi svæða eins og Rauðavatn þannig að hægt verði að stunda fjölbreytta útivist allt árið um kring.


Fjárfesting í sterkari og sjálfbærari hverfum

Samfylkingin hefur sterka og skýra framtíðarsýn á þróun hverfa borgarinnar. Við viljum forgangsraða fjármagni í þau hverfi sem fyrir eru og nýta þá innviði sem búið er að fjárfesta í eins og dæmin sanna með uppbyggingu íþróttamannvirkja við Egilshöll og þéttara neti stíga. Sterkir hverfiskjarnar gegna þar veigamiklu hlutverki með blandaðri byggð, fjölbreyttri þjónustu og gegnir Spöngin lykilhlutverki í Grafarvoginum enda er hún hugsuð sem áfangastaður hverfisins við Borgarlínu. Við viljum skapa áframhaldandi umgjörð fyrir enn sterkari og sjálfbærari Grafarvogi þar sem margvísleg þjónusta er í göngu- og hjólafjarlægð og fimmtán mínútna hverfið verður til með minni umferð, betri loftgæðum og meira öryggi fyrir gangandi og hjólandi. Grafarvogur framtíðar er að fæðast.


Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, búsett í Breiðholti og skipar 7. sæti á lista Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022.