Search
  • Skúli Helgason

Brúum bilið – svona er planið!

Greinin birtist á Vísi 13. maí 2022

Samfylkingin hefur leitt vinnu undanfarin ár við að búa til áætlun um uppbyggingu í leikskólamálum til að koma til móts við foreldra yngstu barna í borginni. Þessi áætlun var fyrst lögð fram og samþykkt 2018 og eftir henni hefur verið unnið síðan. Við höfum opnað nýjan leikskóla í Úlfarsárdal (Dalskóli), 2 til viðbótar í vor við Eggertsgötu og Bríetartún, stækkað 6 leikskóla víðs vegar um borgina, opnað 31 ungbarnadeild og fjölgað plássum hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Alls hefur nýjum plássum fjölgað um 450 með þessum aðgerðum. Á þessu ári bætast við fimm nýir leikskólar, við Nauthólsveg hjá Hlíðarenda, á Kleppsvegi, í Ármúla, í Vogabyggð og á Barónsstíg á lóð Vörðuskóla. Framkvæmdir standa yfir á öllum þessum stöðum eða eru í lokaundirbúningi. Með þessu munu bætast við 800 leikskólapláss í borginni á árinu og það þýðir að við getum byrjað að taka á móti 12 mánaða börnum fyrir áramótin. Rétt er að taka fram að meirihlutinn í borgarstjórn hefur allur tekið þátt í og stutt dyggilega þessa vinnu og m.a.s. Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt þessa áætlun í borgarstjórn, ekki bara einu sinni heldur tvisvar – seinast 3. mars þegar við kynntum og staðfestum að við myndum fjölga leikskólaplássum um helming fram til 2025 til að mæta fjölgun fæðinga og barna á leikskólaaldri í borginni. Allt í allt mun plássunum fjölga um nærri 1700 fram til 2025.

Hvað gerist á næstu árum?

Til viðbótar þeim nýju leikskólum sem opna í ár munum við opna nýjan leikskóla í Safamýri í byrjun næsta árs, ungbarnaleikskóla við Kirkjusand og nýjan leikskóla Miðborgar við Njálsgötu á stórri lóð bak við gamla góða Austurbæ. Á árunum 2024-2026 bætast svo við nýir leikskólir í Völvufelli í Breiðholti, í Vogabyggð og í Skerjafirði. Til viðbótar koma viðbyggingar við eftirsótta leikskóla í borginni, s.s. Hof, Kvistaborg og Sæborg, auk þess sem leikskólinn Laugasól mun stækka verulega með gagngerum endurbótum á húsnæði leikskólans. Við hyggjumst líka bæta við húsnæði við leikskólana Hagaborg og Fálkaborg til að mæta þörfum foreldra í Vesturbæ og Breiðholti. Þá höfum við samþykkt óskir sjálfstætt starfandi leikskóla um fjölgun plássa hjá þeim og munum gera það áfram – þannig mun plássum fjölga um allt að 250 miðað við núverandi áætlanir.

Hvernig á að manna nýju leikskólana?

Það er vissulega áskorun að manna leikskóla þessi misserin, sérstaklega af fagfólki þar sem færri leikskólakennarar útskrifast en fara á eftirlaun eftir að kennaranámið var lengt í 5 ár að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og ný lög menntamálaráðherra Framsóknarflokksins um eitt leyfisbréf hafa haft þær afleiðingar að verulegur fjöldi leikskólakennara hefur flutt sig yfir í grunnskóla. Engu að síður höfum við bætt við 350 starfsmönnum í leikskóla borgarinnar sl. 4 ár í tengslum við fjölgun starfsfólks á elstu deildum leikskólanna og þörfin á nýjum stöðugildum til að manna nýju leikskólana er af svipaðri stærðargráðu eða um 400 stöðugildi sem dreifast á næstu 4 ár. Vel hefur gengið að manna þá leikskóla sem opnað hafa á þessu ári. Við erum stolt af því að hafa samið um launahækkanir við starfsfólk leikskóla en Sjálfstæðisflokkurinn hefur því miður ekki treyst sér til að gera það.

Samfylkingin setur leikskólamál í forgang

Í hnotskurn er staðan sú að skýr áætlun hefur verið samþykkt í borgarstjórn um uppbyggingu leikskóla til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þessi áætlun hefur verið samþykkt án mótatkvæða í borgarstjórn, hún er fjármögnuð að fullu leyti og komin til framkvæmda eins og rakið hefur verið í þessari grein. Samfylkingin hefur leitt þessa vinnu allan tímann og við munum ef við fáum stuðning í kosningunum á laugardag tryggja að uppbygging í leikskólum verði áfram forgangsmál rétt eins og vinnan við að bæta starfsumhverfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í borginni. Samfylkingin setur menntamál í forgang, ekki bara í orði heldur líka á borði. Kjósum áframhaldandi sókn í menntamálum – XS!

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs.