Search
  • Sara Björg Sigurðardóttir

Borgarlínan við Krossamýrartorg mikilvægur valkostur fyrir Árbæinga

Greinin birtist í aprílútgáfu Árbæjarblaðinu
Á liðnu kjörtímabili hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 16.000. Þar af Reykvíkingum um 10.000. Áætlanir gera ráð fyrir svipaðri fjölgun íbúa næstu árin. Með hverjum 4.000 nýjum íbúum fylgja um 3.000 bílar. Þetta þýðir að á einu kjörtímabili hafa bæst við 12.000 bílar á höfuðborgarsvæðinu. Margir íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur sækja vinnu eða skóla til borgarinnar og hefur þessi bílaaukning áhrif á umferðarþunga í borginni og loftgæði. Það er því algert lykilatriði fyrir íbúa í Árbæ að tenging Borgarlínu komist sem fyrst í gagnið við Krossamýrartorg áður en nýtt land er numið undir byggð eins og Keldnaholt.


Uppbygging Borgar­línunnar er langtímaverkefni en Nýja leiðanetið sem kemur í kjölfar fyrstu framkvæmdalotu Borgar­línunnar felst í að byggja sérrými – borgarlínubrautir – á um 14,5 km löngum kafla, frá Hamraborg í Kópa­vogi um miðborg Reykjavíkur að Ártúnshöfða við nýtt Krossamýrartorg árið 2025. Viss sveigj­anleiki verður fyrir vagna sem geta keyrt inn og út úr sérrými, sem býður upp á að hægt verður að byggja upp innviði í lotum en borgarlínu vagnar geta ekið á venjulegu gatnakerfi. Með góðri hagsmunagæslu íbúaráðs Árbæjar liggur nú fyrir að Borgarlína muni ganga í hverfið í öðrum áfanga, leið F.

Ástæðan fyrir þessari röð framkvæmda er einföld. Hvorki Ártúnsbrekka né Miklabraut þolir fleiri bíla í dag, hvað þá þann fjölda sem fylgir byggð á Keldum. Milli 3.000-4.000 viðbótar bílar færu daglega um Ártúnsbrekku ef farið væri strax í nýja byggð í Keldnalandi. Hitt er svo annað mál að það verður byggt í Keldnalandi þegar þar að kemur enda gerir uppbygging Borgarlínu beinlínis ráð fyrir því árið 2034.


Samfylkingin hefur sterka og skýra framtíðarsýn á þróun hverfa borgarinnar. Við viljum forgangsraða fjármagni í þau hverfi sem fyrir eru og nýta þá innviði sem búið er að fjárfesta í með áframhaldandi uppbyggingu og fjárfestingu í stað þess að þenja byggðina út strax með nýrri uppbyggingu. Með tilkomu Borgarlínu við Krossamýrartorg skapast raunhæfur valkostur fyrir Árbæinga að skilja bílinn eftir heima og hoppa upp í Borgarlínu sem ferðast í sérrými niður í miðborg.


Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og skipar 7. sæti á lista Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022.