Search
  • Birkir Ingibjartsson

Borgarlína - klárum dæmið !

Undirbúningur við gerð Borgarlínunnar er á fullri ferð. Alþjóðlegt hönnunarteymi á vegum Vegagerðarinnar og Betri samgangna ohf. vinnur að hönnun göturýmis Borgarlínunnar. Innan skipulags- og samgöngudeilda Reykjavíkur eru til skoðunar þær breytingar á skipulagi og samgöngum sem Borgarlínan kallar á. Samhliða er verið að skilgreina hvernig við tryggjum gæði þeirra borgarrýma og gatna sem Borgarlínan liggur um. Samkvæmt áætlun munu framkvæmdir við fyrstu lotu Borgarlínunnar hefjast strax á næsta ári.


Með Borgarlínunni munu skapast nýjar tengingar milli hverfa, borgarhluta og til annara sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Tengingar sem eru á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda og þar sem almenningssamgöngur eru í forgrunni. Til verða nýir möguleikar til að ferðast um borgina með fjölbreyttum hætti sem styttir vegalengdir fyrir borgarbúa og dregur úr hlutdeild einkabílsins í ferðum þeirra - hvort sem fólk kýs í auknum mæli að labba, hjóla eða treysta á Borgarlínuna.


Á næstu fjórum árum mun Borgarlínan og framkvæmdir henni tengdar vera mikið til umfjöllunar. Það sama gildir um allar helstu ákvarðanir sem teknar verða um það hvernig kerfið mun virka fyrir notendur þess. Í mörgum tilvikum verður tekist á um hvernig borgarumhverfi við mótum með þeim framkvæmdum og innviðauppbyggingu sem felast í verkefninu. Skiptir þar máli að setja upplifun borgarbúa í forgrunn en velja um leið lausnir sem horfa til framtíðar og stuðla að umhverfisvænu borgarumhverfi. Við verðum að taka frá meira pláss fyrir gróður, grænar áherslur og mannlífið.


Áætlað er að íbúum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga um 70.000 manns á næstu 15 árum. Breyttar ferðavenjur innan borgarinnar eru lykilatriði í að tryggja að samgöngur muni einfaldlega virka með auknum íbúafjölda á svæðinu. Eru breyttar ferðavenjur um leið lykilatriði í að tryggja að við getum staðið við alþjóðlegar loftslagsskuldbindingar okkar. Borgarlínan er eina raunhæfa lausnin til að þau markmið gangi eftir.


Í ljósi mikilvægi verkefnisins verðum við að standa vörð um kjarna Borgarlínunnar í allri þeirri ákvarðanatöku sem framundan er. Mikill metnaður hefur verið settur í undirbúning verkefnisins á liðnum árum en nú er komið að því að ákveða útfærsluna. Nú um helgina, þann 14. maí næstkomandi, verður gengið til borgarstjórnarkosninga. Þar skiptir máli að til starfa í borgarstjórn veljist fólk og flokkar sem til að byrja með hafa trú á Borgarlínunni. Að hafa skilning á umfangi verkefnisins og þeim tækifærum sem því fylgir er ekki síður mikilvægt.


Við í Samfylkingunni vitum að því fylgir mikil ábyrgð að móta umhverfi borgarinnar. Við munum gæta þess að hvergi verði slegið af þeim gæðum sem Borgarlínan þarf að hafa eða kröfum okkar um gott og heilnæmt umhverfi fyrir fólkið í borginni.

Birkir Ingibjartsson, arkitekt og verkefnastjóri hjá borgarskipulagi Reykjavíkur

Skipar 8. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar