Search
  • Heiða Björg Hilmisdóttir

Börn skilin eftir

Greinin birtist á vefsíðu Fréttablaðsins 5. maí 2022

Þegar sveitar­fé­lögin tóku við rekstri mála­flokks fatlaðs fólks árið 2011 „gleymdist“ að gera ráð fyrir úr­ræðum fyrir börn með þroska- og geð­raskanir og að það kostaði eitt­hvað að þjónusta þau. Sveitar­fé­lög fengu því ekki til þess fjár­magn. Þessi börn eru skil­greind sem hættu­leg sjálfum sér og öðrum og þurfa stuðning og gæslu allan sólar­hringinn. Það er á­byrgð sam­fé­lagsins að tryggja að þau fái það. Þau búa við mjög flókinn heil­brigðis­vanda og þurfa þjónustu sem er sam­þætt fé­lags­legri þjónustu, gagn­reynd með­ferðar­úr­ræði, bú­setu og gæslu allan sólar­hringinn.

Far­sæld fyrir öll börn?

Sveitar­fé­lög hafa kallað eftir að heil­brigðis- og fé­lags­mála­ráðu­neytin komi upp sér­hæfðri þjónustu fyrir þessi börn auk barna og ung­menna í barna­verndar­kerfinu sem glíma við margs konar til­finninga- og hegðunar­vanda. Það hefur enn ekki tekist og nú á loks að skipa starfs­hóp um málið. Á hverju ári eru um 30 börn í þessari stöðu á öllu landinu og fyrir utan að það er ekki hlut­verk sveitar­fé­laga að byggja upp svo sér­hæfð með­ferðar­úr­ræði þá er það ó­ger­legt að öll sveitar­fé­lög geti komið sér upp svo sér­hæfðri þekkingu.

Laumu­einka­væðing

Þetta tóma­rúm hefur skilað því að heil­brigðis- og bú­setu­þjónusta fyrir þennan hóp hefur verið einka­vædd án þess að það hafi nokkurs staðar verið á­kveðið. Einka­fyrir­tæki hafa stigið inn og selja úr­ræða­lausum sveitar­fé­lögum þjónustu. Al­gengur kostnaður fyrir þjónustu við hvert barn er um 60 til 80 milljónir á ári. Nú ætla ég ekki að efast um að einka­fyrir­tæki rækti sitt hlut­verk vel en það er ekki eðli­legt að skilja þessi börn eftir. Þau eru svipt þeirri heil­brigðis­þjónustu sem þau eiga rétt á og skortur er á að byggð verði upp við­eig­andi þekking og gagn­reynd með­ferð á vanda þessara barna.

Fyrir öll börn

Reykja­vík er öflugasta sveitar­fé­lagið í vel­ferðar­málum og hvers kyns fé­lags­legri upp­byggingu og þjónustu. Við höfum lagt á­herslu á mál­efni barna á þessu kjör­tíma­bili, erum að inn­leiða verk­efnið „betri borg fyrir börn“ sem á að tryggja snemmtæka þjónustu á vett­vangi barnanna og fjöl­skyldna þeirra. Við höfum eflt stuðnings- og stoð­þjónustu, stuðnings­fjöl­skyldur, skamm­tíma­vistun og barna­verndar­mál hafa aldrei verið jafn mörg. Við erum að aug­lýsa eftir mál­stjórum og erum til­búin að inn­leiða far­sældar­lög sem barna­mála­ráð­herra hefur lagt á­herslu á. Ef vel tekst til mun það koma í veg fyrir vanda fjölda barna og fjöl­skyldna. En þau börn sem þurfa sér­hæfð úr­ræði þurfa að geta fengið þau, strax. Sam­fylkingin leggur á­herslu á að mál­efni þessara barna verði tekin föstum tökum, ís­lenskt sam­fé­lag getur ekki inn­leitt far­sældar­lög barna og skilið veikustu börn Ís­lands eftir.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, formaður velferðarráðs og ofbeldisvarnarnefndar