Search
  • Sara Björg Sigurðardóttir

Útivistarperla í jaðri byggðar

Greinin birtist fyrst í maí útgáfu Árbæjarblaðsins.


Í borginni eru margir staðir til að næra sál og líkama. Mörgum finnst gott að ganga, finna lyktina af náttúrunni og njóta útsýnis. Öðrum finnst skemmtilegra að hjóla, vera í síbreytilegu umhverfi innan borgarmarkanna, hjóla meðfram sjónum með vindinn í fangið, upplifa sólsetur með sjávarlykt eða horfa á borgina vakna í hversdagsleikann í upphafi vinnuviku. Við sem búum í úthverfi vitum hversu mikil forréttindi þetta eru að geta notið náttúrunnar í jaðri byggðar en á sama tíma búa í höfuðborginni. Á síðustu tíu árum hefur orðið umbreyting á ferðavenjum borgarbúa eftir mikla uppbyggingu á innviðum hjólastíga og með tilkomu rafhjóla. Á síðasta kjörtímabili var tekin pólitísk ákvörðun í ráðhúsinu, undir forystu Samfylkingar, að forgangsraða fjármunum í hjólreiðainnviði fyrir fjölbreytta vistvæna ferðamáta, fyrst með hjólreiðaáætlun 2015-2020 og svo var samþykkt ný hjólreiðaáætlun fyrir árin 2021-2025.


Tröppu þrek upp og niður Svarthöfða

Íbúar í Árbæ eru mjög heppnir með aðgang að stígakerfi Elliðaárdalsins en núna eru hafnar framkvæmdir við aðgreiningu hjólastígs frá göngustíg Breiðholtsmegin ásamt nýjum brúm, meðal annars yfir ána Dimmu. Aðgreindur stígur gangandi og hjólandi var byggður upp Svarthöfða og tekinn í notkun í lok ársins þannig að vaskir geta tekið gott tröppuþrek eða hjólaklifur upp Svarthöfða og notið útsýnis yfir borgina. Stígurinn niður Rafstöðvarbrekkuna fram hjá Toppstöðinni var endurgerður. Kaldur pottur kom í Árbæjarlaug og Rauðavatnshringurinn tók stakkaskiptum, er orðinn upplýstur og gefur færi á útivist allan ársins hring – líka í svartasta skammdeginu. Frábær viðbót við útivistarperluna Árbæ.


Austurheiðar - Hin nýja Heiðmörk Reykvíkinga

Við í Samfylkingunni viljum efla Austurheiðar með markvissari hætti sem fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir borgarbúa á öllum aldri með ólík áhugamál sem gætu notið útivistar og náttúru án þess að ganga á gjafir náttúrunnar. Við sjáum fyrir okkar hópa eins og hestafólk, fjalla hjólreiðamenn, göngu og utanvegahlaup jafnvel vetraríþróttir eins og gönguskíði. Mikilvægt er að ákvarða og skilgreina legu helstu vegtenginga og göngu-, hjóla og reiðleiða um svæðið, styrkja tengingu byggðar við útivistarsvæði og aðliggjandi svæða eins og Rauðavatn þannig að hægt verði að stunda fjölbreytta útivist allt árið um kring.


Öflug uppbygging í þágu barna og ungmenna í hverfinu

Eftir að aðstaða til að stunda fimleika kom í Norðlingaholt fjölgaði stúlkum í skipulögðu íþróttastarfi. Það skiptir miklu máli hvaða íþróttaframboð er veitt í hverfum borgarinnar þegar horft er til þátttöku beggja kynja og þarna skilaði sér sú uppbygging í beinni fjölgun stúlkna. Á kjörtímabilinu var uppbyggingu haldið áfram með nýjum gervigrasvelli, flóðlýsingu og áhorfendastúku á Fylkissvæðinu. Í skoðun er að byggja tengibyggingu milli áhorfendastúkunnar og Fylkisheimilis sem myndi hýsa meðal annars Borgarbókasafnið. Hugmyndin kemur úr Úlfarsárdal þar sem vel heppnuð menningarmiðstöð með bókasafni og íþróttamannvirki eru undir sama þaki og gegnir gríðarlega mikilvægu félagslegu hlutverki fyrir íbúa á öllum aldri, sérstaklega til að sporna við mestu meinsemd 21. aldar borgarsamfélagsins – einmannaleika.


Fjárfesting í sterkari og sjálfbærari hverfi

Samfylkingin hefur sterka og skýra framtíðarsýn á þróun hverfa borgarinnar. Við viljum forgangsraða fjármagni í þau hverfi sem fyrir eru og nýta þá innviði sem búið er að fjárfesta í með áframhaldandi uppbyggingu og fjárfestingu í stað þess að þenja byggðina út strax með nýrri uppbyggingu eins og í Keldnaholti. Sterkir hverfiskjarnar gegna þar lykilhlutverki með blandaðri byggð og fjölbreyttri þjónustu. Rofabær og Bæjarháls verða borgargötur með hverfistorgum, grenndarstöðvum, stoppistöðvum fyrir Strætó, hleðslustöðvum rafbíla og stæðum fyrir deilibíla. Þar verður sköpuð umgjörð fyrir sterkari og sjálfbærari kjarna þar sem margvísleg þjónusta er í göngu- og hjólafjarlægð, hvort sem um ræðir skóla, leikskóla, tómstundir eða græn svæði. Þess vegna er svo mikilvægt að fylgja eftir samþykktu Hverfisskipulagi fyrir Árbæinn þannig að fimmtán mínútna hverfið komist fljótt og vel í framkvæmd með minni umferð innan hverfis, betri loftgæðum og meira öryggi fyrir gangandi og hjólandi. Árbær er á réttri leið.


Gerum Austurheiðar að nýju Heiðmörk Reykvíkinga og setjum X við S þann 14. maí 2022.Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, búsett í Breiðholti og skipar 7. sæti á lista Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022.